Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr.542/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 542/2023

Fimmtudaginn 15. febrúar 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. nóvember 2023, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 21. september 2023 og var umsóknin samþykkt 17. nóvember 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. nóvember 2023, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans væru stöðvaðar á grundvelli  4. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hefði ekki tilkynnt stofnuninni um veikindi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 29. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 28. desember 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi misst greiðslur atvinnuleysisbóta á þeim grundvelli að hann hafi neitað atvinnutilboði. Kærandi hafi ekki neitað starfi heldur hafi hann upplýst um heilsufar sitt. Þrátt fyrir að hafa sent Vinnumálastofnun læknisvottorð hafi stofnunin stöðvað greiðslur til hans en venjulega sé um tveggja mánaða viðurlög að ræða. Kærandi óski eftir aðstoð því annars verði hann tekjulaus og eigi á hættu að missa húsnæði sitt.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 21. september 2022. Með erindi, dags. 17. nóvember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Þann 22. ágúst 2023 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði ekki mætt í boðað atvinnuviðtal sem honum hafi boðist hjá B. Um hafi verið að ræða starf við uppsteypu á byggingastað en kæranda hafi verið miðlað í umrætt starf af Vinnumálastofnun. Samkvæmt upplýsingum frá B hafi kærandi ekki mætt í atvinnuviðtal sem honum hafi staðið til boða. Jafnframt hafi kærandi gefið atvinnurekanda þær skýringar að hann væri óvinnufær sökum bakverkja.    

Með erindi, dags. 18. september 2023, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á höfnun á atvinnuviðtali hjá B. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að ef atvinnuleitandi hefði hafnað atvinnutilboði eða atvinnuviðtali án gildra ástæðna gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Jafnframt hafi verið óskað eftir starfshæfnisvottorði með vísan til tilkynningar atvinnurekanda um að kærandi hefði sagst vera óvinnufær. 

Þann 18. september 2023 hafi skýringar kæranda borist vegna höfnunar á atvinnuviðtali. Í skýringum kæranda vísi hann til þess að hann hafi verið þjáður af bakverkjum þann 21. og 22. ágúst 2023. Hann eigi pantaðan tíma hjá lækni þann 19. september 2023. Jafnframt hafi fylgt með afrit af SMS-samskiptum kæranda og atvinnurekanda, B frá 22. ágúst 2023. Af þeim skilaboðum megi ráða að kærandi gæti ekki unnið þá vinnu sem hafi verið í boði sökum bakverkja eftir slys.

Ekkert starfshæfnisvottorð hafi borist Vinnumálastofnun sem staðfesti starfsgetu þrátt fyrir beiðni þess efnis. Með erindi, dags. 29. september 2023, hafi umsókn kæranda verið synjað þar sem umbeðin gögn hefði ekki borist stofnunni. Þann 7. nóvember 2023 hafi borist starfshæfnisvottorð sem staðfesti að kærandi glímdi við bakverki. Samkvæmt læknisvottorði hafi það verið læknis að Vinnumálastofnun myndi taka tillit til þess við miðlun kæranda í starf. 

Með erindi Vinnumálastofnunar, dags 9. nóvember 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans yrðu stöðvaðar. Kærandi hafi nýtt meira en 24 mánuði af bótatímabili sínu og hafi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um óvinnufærni sína samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 10. nóvember 2023. Rökstuðningur kæranda í kæru sé efnislega samhljóma þeim skýringum sem hann hafi þegar veitt Vinnumálastofnun.

Með tölvupósti kæranda 13. nóvember 2023 hafi Vinnumálastofnun borist frekari skýringar vegna höfnunar á starfstilboði. Kærandi hafi tekið fram að hann hefði ekki getað tekið umræddu starfstilboði með vísan til þess að hann hefði ekki aðgang að bíl og ætti erfitt með að komast til og frá vinnu.

Við nánari skoðun á máli kæranda hafi komið í ljós að ranglega hafi verið staðið að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. nóvember 2023. Þann 22. ágúst 2023 hafi Vinnumálastofnun borist erindi frá atvinnurekanda um höfnun á atvinnutilboði. Á þeim tímapunkti hafi kærandi ekki verið búinn að nýta að fullu 24 mánuði af bótarétti sínum. Það sé mat Vinnumálastofnunar að ákvörðun, dags. 9. nóvember 2023, hafi að geyma efnislega ranga niðurstöðu. Stofnunin hafi þegar tekið mál kæranda upp að nýju og birt nýja ákvörðun. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kæranda beri að sæta viðurlögum í formi tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 en ekki greiðslustöðvun á grundvelli 4. mgr. 59. gr.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki mætt í boðað atvinnuviðtal sem honum hafi staðið til boða þann 22. ágúst 2023. Samkvæmt skýringum atvinnurekanda hafi kærandi borið fyrir sig óvinnufærni og því gæti hann ekki getað ráðið sig í vinnu að sinni. Skýringar atvinnurekanda séu í samræmi við innsent læknisvottorð og skýringar kæranda. Fyrir liggi læknisvottorð, útgefið 7. nóvember 2023, þar sem fram komi að kærandi þjáist af bakverki og eigi erfitt með að sinna mikilli líkamlegri vinnu. Í læknisvottorði sé óskað eftir að tekið yrði tillit til þess í miðlun kæranda í störf.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 9. nóvember 2023, hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda verið stöðvaðar á grundvelli 4. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sökum þess að skýringar kæranda á höfnun á atvinnutilboði hafi ekki verið metnar gildar.

Við nánari skoðun á máli kæranda hafi komið í ljós að kærandi hafi ekki að fullu nýtt 24 mánuði af bótarétti sínum þegar atvik hafi átt sér stað þann 22. ágúst 2023. Ákvörðun, dags. 9. nóvember 2023, hafi verið afturkölluð og kæranda birt ný ákvörðun, dags. 13. desember 2023. Í hinni nýju ákvörðun hafi kæranda verið gert að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar segi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé lögð rík áhersla á upplýsingaskyldu atvinnuleitanda gagnvart Vinnumálastofnun. Þannig sé meðal annars í 3. mgr. 9. gr. laganna kveðið á um að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Upplýsingaskylda atvinnuleitanda sé ítrekuð á öllum stigum umsóknarferlis um atvinnuleysisbætur. Við upphaf umsóknar séu atvinnuleitendum kynnt margvísleg atriði er varði réttindi og skyldur, þar á meðal um upplýsingaskyldu. Í lok umsóknarferlis staðfesti allir atvinnuleitendur að þeir hafi kynnt sér þau atriði.

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitendum að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni eða aðstæðum þeirra að öðru leyti samkvæmt 1. mgr. 14. gr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Þá segi í 5. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna um upphaf og lok veikinda til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar.

Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um óvinnufærni sína fyrr en eftir miðlun í starf þann 22. ágúst 2023 og eftir að honum hafi boðist viðtal hjá atvinnurekanda. Það hafi ekki verið fyrr en stofnunin hafi leitað eftir skýringum á ástæðum þess að hann hefði hafnaði atvinnuviðtali sem upplýsingar um skerta vinnufærni kæranda hafi borist stofnuninni. Slíkt uppfylli að mati stofnunarinnar ekki áskilnað 2. mgr. og 5. mgr. 14. gr laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun telji því að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að tilkynna um breytingar sem hafi haft bein áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kæranda beri að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 4. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni var hin kærða ákvörðun um stöðvun greiðslna afturkölluð þar sem í ljós kom að kærandi hafði ekki fullnýtt 24 mánuði af bótarétti sínum. Með nýrri ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 13. desember 2023, var kæranda gert að sæta tveggja mánaða viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006.

Í 59. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því að láta hjá líða að veita upplýsingar eða láta hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Ákvæði 1. mgr. 59. gr. er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. og 59. gr. a. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í umsókn um atvinnuleysisbætur skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. skal hinn tryggði upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Í 2. mgr. 14. gr. laganna kemur einnig fram að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.

Samkvæmt fyrirliggjandi umsókn um atvinnuleysisbætur, dags. 21. september 2022, tilgreindi kærandi að hann væri almennt vinnufær. Eftir að kærandi mætti ekki í atvinnuviðtal hjá byggingarfyrirtæki lagði hann fram læknisvottorð um skerta vinnufærni. Í læknisvottorðinu, dags. 7. nóvember 2023, kemur fram að kærandi sé að kljást við bakverki vegna slyss sem hann varð fyrir og því eigi hann erfitt með að sinna mikilli líkamlegri vinnu. Í vottorðinu er óskað eftir því að tekið verði tillit til þessa varðandi möguleg störf kæranda.

Í ljósi upplýsingaskyldu 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 verður fallist á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum er hann greindi ekki strax frá skertri vinnufærni sinni. Í 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er skýrt kveðið á um beitingu viðurlaga við slíku broti. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum